Félagslíf nemenda

Nemendafélag skólans, NFB, vinnur að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Stjórn NFB (nemendaráð) er skipuð forseta, varaforseta, markaðsstjóra, skemmtanastjóra og meðstjórnanda. Þessi fimm sjá um daglegan rekstur félagsins og hafa yfirumsjón með öllu sem gerist á þess vegum. Kosið er í nemendaráð og nefndir í apríl ár hvert en nýir fulltrúar í nemendaráði og nefndum taka við störfum í byrjun skólaárs.

Nemendafélagið er rödd nemenda gagnvart skólastjórnendum. Forseti situr í skólaráði og er áheyrnarfulltrúi í skólanefnd. Nýnemaferð, forvarnardagur og skólafundir eru viðburðir sem skólayfirvöld og nemendafélagið undirbúa saman.

Nemendafélagið heldur uppi fjölbreyttu félagslífi og freistar þess að virkja sem flesta nemendur til þátttöku. Sem dæmi má nefna nýnemakvöld, böll, bíókvöld, skák, íþróttakeppnir, söngkeppni, tónleika, spilakvöld og bingó svo að öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Öll eru velkomin að koma með hugmyndir að viðburðum og nemendafélagið hvetur sérstaklega til þess.

Árlega tekur NFB þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna, Gettu betur og öðrum sameiginlegum keppnum framhaldsskólanna. Í mars ár hvert halda nemendur Sæludaga, sem eru uppbrotsdagar í skólanum. Á seinni Sæludeginum er svo haldin árshátíð um kvöldið. Skólareglur gilda á öllum viðburðum sem haldnir eru í nafni skólans. Um dansleikjahald gilda sérstakar reglur.