Heimsfræ er nýr áfangi sem er kenndur á haustönn í FB og byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og eru nýnemar, alls 230 nemendur skráðir í áfangann. Markmiðið er að fá nemendur til að verða meðvitaða um umhverfi sitt og stöðuna í heiminum í dag og ekki síst að læra um og komast að því hvað þau geta gert til að gera heiminn að betri stað. Upphafsdagur áfangans var sl. fimmtudag og fengum við frábæra gesti til þess að koma nemendum í rétta gírinn! DJ Ragga Hólm kom öllum í stuð og Andri Snær Magnason rithöfundur flutti magnað erindi sem snerti hjörtu allra. Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hvatti nemendur til dáða og allra góðra verka. Boðið var upp á gómsætar veitingar og að lokum völdu nemendur sér heimsmarkmið til að vinna með næstu vikurnar. Við þökkum öllum góðum gestum fyrir komuna sem og kennurum áfangans og síðast en ekki síst okkar frábæru nýnemum!