Fab Lab Reykjavík og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hafa ásamt öflugum samstarfsaðilum staðið í ströngu við að þróa verkefni til þriggja ára undir heitinu CoCoon. Verkefnið hefur nú verið samþykkt af Erasmus+ sem kjarnaaðgerð í flokki framsýnna verkefna og hlýtur fjármögnun upp á eina milljón evra. Verkefnahópurinn mun velja hagnýtar aðferðir á sviði lífhönnunar (e. biodesign) og þróa kennsluefni fyrir framhalds- og háskóla.

Verkefnið heitir „COCOON – Co-Creating greener futures; developing and transferring innovative bio-design modules for education to accelerate the green transition“ eða Sköpum grænni framtíðir – þróun og innleiðing lífhönnunarvinnustofa í menntun til að hraða grænni umbreytingu.

Markmið verkefnisins er að hraða grænni umbreytingu í hönnunar- og byggingargreinum sem gerir fólki kleift að finna nýjar leiðir til að búa til umhverfisvænar vörur. Verkefnið leggur jafnframt áherslu á að móta stefnu um opinn aðgang að grænum vinnustofum (Green Labs) svipað og þekkist í Fab Lab smiðjum, sem gerir fólki kleift að þróa og prófa tæknilega flóknar nýjungar sem byggja á vísindalausnum. Slíkar lausnir eru nauðsynlegar á mörgum sviðum hönnunar- og byggingagreina til að hefja græna umbreytingu.

Í CoCoon verkefninu verða þróaðar 10 vinnustofur sem byggja á ólíkum aðferðum lífhönnunar. Til að ná til frumkvöðla, grúskara, hönnuða, kennara og nemenda á háskóla- og framhaldsskólastigi verða aðferðirnar innleiddar í nám samstarfsskólanna og í vinnustofur innan Fab Lab smiðja. Gert er ráð fyrir að 50 frumgerðir á sviði lífhönnunar verði til í verkefninu.

Þóra Óskarsdóttir og Bryndís Steina Friðgeirsdóttir eru í Lissabon og taka þar þátt í að hrinda verkefninu formlega í gang. Á næstu mánuðum munu því skapast aukin tækifæri til lífhönnunar í Fab Lab Reykjavík. Við treystum á ykkur kæra hugvitsfólk að koma með hugmyndirnar.

Samstarfsaðilar verkefnisins eru:

Meðal samstarfsaðila verkefnisins eru þrjár af fremstu Fab Lab smiðjum Evrópu. Smiðjurnar munu leiða innleiðingu lífhönnunar til frumkvöðla og almennings. Innleiðingin fer fram í gegnum vinnustofur í Fab Lab smiðjunum, en einnig í gegnum þróun á frumgerðum í samstarfi við hugvitsfólk. Fab Lab smiðjur verkefnisins eru:

Samstarfsaðilar verkefnisins eru einnig eftirtalin rannsóknarsetur, sem eru leiðandi í lífhönnun og vistkerfum nýsköpunar:

  • TRIE – Transdisciplinary Research Center for Innovation Ecosystems and Entrepreneurship of ISMAT – í Portúgal
  • CIBIO – Rannsóknarmiðstöð í líffræðilegum fjölbreytileika og erfðaauðlindum
  • BIOPOLIS – Alþjóðleg öndvegismiðstöð í umhverfislíffræði, vistkerfisrannsóknum og líffræðilegum fjölbreytileika

Þar sem lífhönnun er í stöðugri þróun og til að halda í við kvikt umhverfi grænnar nýsköpunar munu einnig verða kallaðir til rannsakendur frá öðrum rannsóknarsetrum. Þeir eru meðal annarra:

  • Þóra Hafdís Arnardóttir, rannsakandi hjá Hub for Biotechnology in the Built Environment og Lektor í Central Saint Martins. Rannsóknir hennar eru á sviði lífhönnunar og þróun aðferða til að nýta örverur í byggingariðnaði
  • Dr. Jorge Lopez, prófessor í PUC háskólanum í Rio de Janeiro í Brasilíu þar sem hann stýrir NEXT rannsóknarstofunni.

AALTO háskóli hefur nú þegar auglýst eftir doktorsnemum sem vilja taka þátt í verkefninu og geta áhugasamir hönnuðir, líffræðingar sem og kennarar á sviði fræðslu sótt um hér.

Á heimasíðu TRIE er hægt að fræðast meira um CoCoon verkefnið.