Námsmat og einkunnir

Námsmati er ætlað að meta hvernig nemanda hefur gengið að tileinka sér námsmarkmið í áfanga. Í kennsluáætlun hvers áfanga kemur fram hvernig námsmati er háttað. Það skal kynnt nemendum í upphafi annar. Námsmat er í höndum kennara.

Einkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1 til 10. Einkunnin 10 vísar til þess að 95–100% markmiða hafi verið náð og 5 til þess að 45–54% markmiða hafi verið náð. Lágmarkseinkunn í áfanga er 5. Nemandi telst ekki hafa staðist áfanga þegar einkunn er lægri og fær því ekki að taka næsta áfanga á eftir.

Nemanda er heimilt að útskrifast með einkunnina 4 (D) ef um lokaáfanga eða stakan áfanga er að ræða. Ekki er heimilt að hafa fleiri en tvær slíkar einkunnir á lokaprófsskírteini. Þessir áfangar gefa ekki einingar og verður nemandi því að afla annarra eininga í stað þeirra.

Ef fall í einum áfanga á lokaönn kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast má hann endurtaka próf í þeim áfanga. Nemandinn öðlast ekki þennan rétt fyrr en ljóst er að hann hafi náð fullnægjandi árangri í öðrum áföngum á lokaönn. Nemendur eiga ekki rétt á endurtektarprófi í símatsáföngum ef í áfangalýsingu eða kennsluáætlun, sem nemendur fá í upphafi annar, er skýrt tekið fram að námsmatið byggist á símati sem nemendur verði að standast.

Prófahald og einkunnaskráning

Kennarar í dagskólanum skrá jafnóðum einkunnir fyrir verkefnaskil og hlutapróf í Innuna og geta nemendur og forráðamenn þannig fylgst með því hvernig nemandanum gengur í náminu yfir önnina.

Um framkvæmd prófa gilda nákvæmar formlegar prófreglur sem allir hlutaðeigandi skulu fylgja.

Nemendur sem eiga við fötlun og/eða sértæka námsörðugleika að stríða eiga eftir aðstæðum rétt á sérstakri aðstoð við nám, próf og annað námsmat. Náms- og starfsráðgjafar, að fenginni umsögn sérfræðinga, leggja mat á möguleika og leiðir skólans til þess að mæta þörfum hlutaðeigandi nemenda.

Prófareglur

Verkefnaskil

Skili nemendur verkefnum sem eru afrituð frá öðrum aðila, skulu verkefnin ekki talin með til einkunnar. Leiki vafi á því hvor nemandinn hafi unnið verkefnið skal hvorugur nemandinn fá gilda einkunn fyrir verkefnið. Þannig er það á ábyrgð hvers nemanda að láta ekki vinnu sínu af hendi og dreifa henni til annarra.

Leiki vafi á því hvort nemandi hafi réttilega unnið verkefnið sjálfur, m.a. ef mikill munur er á framlagi nemandans í kennslustundum og verkefni sem hann skilar, þá má kennarinn fara fram á það að nemandinn vinni verkefnið aftur í viðurvist kennarans.

Prófareglur almennt

Nemendur skulu ávallt geta framvísað skilríkjum með mynd í prófum.

Óleyfilegt er að koma með snjallsíma, snjallúr, far- eða spjaldtölvur, hvers kyns heyrnartól, reiknivélar eða önnur raftæki. Í einstaka tilvikum getur kennari leyft notkun slíkra hjálpartækja og í þeim tilvikum skal það að standa skriflega á prófinu og nemendum gefin fyrirmæli um það áður.

Óheimilt er að vera klæddur yfirhöfn í prófum.

Til að tryggja að nemendur séu ekki með í eyrum er skylt að eyru og andlit séu sýnileg.

Ekki er heimilt að fara á salerni eftir að próf er hafið.

Nemendur skulu hafa augu á eigin prófi og mega ekki svipast um eftir lausn sessunauta. Slíkt hátterni telst svindl og varðar brottrekstur úr prófi.

Nemendur skulu virða vinnufrið og þögn í prófi. Að öðrum kosti skal þeim vísað úr prófi og hafa þannig fyrirgert rétti sínum til þess að þreyta prófið. Þurfi nemandi að fanga athygli kennara skal hann rétta upp hönd og bíða eftir kennaranum.

Mæti nemandi meira en fimm mínútum eftir að próf er hafið er það mat kennarans hvort nemandinn fái tækifæri til þess að leysa prófið. Nemandi sem mætir of seint til prófs á ekki rétt á framlengingu próftíma.

Ef nemandi opnar próf, þá er ekki hægt að hætta við og fá að taka aukapróf. Skiptir þá engu máli hversu lengi nemandinn hafði prófið opið.

Nemanda er óheimilt að afrita prófið með nokkru móti, hvorki að hluta né í heild.

Brot á prófareglum geta valdið brottrekstri úr skóla.

Rafræn próf

Þegar tekið er rafrænt próf er það á ábyrgð nemandans að hafa tækið fullhlaðið og tilbúið til notkunar. Ávallt skal birtustig á skjánum vera á hæstu stillingu svo glöggt megi sjá hvað fer fram á skjánum.

Nemendum er með öllu óheimilt að nota leitarvélar, gervigreind eða önnur gögn til þess að finna svör við prófaúrlausnum. Slík leit nemanda verður til þess að próf nemandans verður ógilt og hann fyrirgerir rétti sínum til þess að taka prófið.

Heimapróf

Í heimaprófum gildir allt hið sama og í rafrænum prófum. Ekki má mismuna nemendum og ekki er heimilt að leyfa einstaka nemendum að taka heimapróf taki aðrir nemendur próf á staðnum.

Viðurlög við svindli og/eða akademísku misferli

Verði nemandi uppvís að svindli fær hann núll fyrir prófið og við ítrekað brot á hann á hættu á að falla í áfanganum. Nemandi hættir á að vera vísað úr skólanum gerist hann ítrekað sekur um svindl eða misferli.

Við akademískt misferli er t.d. átt við ranga meðferð heimilda og ritstuld.

Endurtektarpróf

Útskriftarnemandi sem hefur náð öllum prófum nema einu á rétt á endurtektarprófi gegn greiðslu.

Birting einkunna og prófsýning

Nemendur og forráðamenn ólögráða nemenda fá aðgang að lokaeinkunnum í áföngum á afhendingardegi einkunna, með opnun Innunnar. Lögum samkvæmt á nemandi rétt á útskýringum á mati sem liggur að baki lokaeinkunn innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Prófsýning er haldin í FB fljótlega eftir að einkunnir eru afhentar, þá eiga nemendur þess kost að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennarans. Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt.

Ef nemandi telur einkunnagjöf kennara ósanngjarna á hann rétt á að vísa málinu til skólameistara og óska eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveða til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður prófdómara er endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.