Skólafundir

Á hverri önn eru haldnir skólafundir í skólanum þar sem öllum í skólasamfélaginu stendur til boða að taka þátt. Skólafundir byggja á 9. grein laga um framhaldsskóla. Á skólafundi er rætt um málefni skólans. Fundirnir hafa verið skipulagðir þannig að nemendur ræða saman í stofum undir stjórn kennara og niðurstöðum hefur verið skilað inn og safnað saman í sérstakri fundargerð eða bæklingi, einnig hafa þeir verið haldnir með fyrirkomulaginu ‘heimskaffi’. Fundargerðir skólafunda síðustu missera má finna hér.

Forvarnadagur

Forvarnadagur er haldinn á hverri námsönn og skipulagður með ýmsum hætti. Nemendum er boðið upp á ávexti og hollustu að morgni dags og síðan eru fræðsluerindi og uppákomur í skólanum. Á haustönn er oft sérfræðifyrirlestur sem nemendur geta hlustað á í kennslustofum og síðan eru umræður á eftir. Á forvarnardegi vorannar er nokkrum aðilum sem sinna forvörnum boðið að halda fyrirlestra og geta nemendur valið t.d. tvo þeirra.

Fræðsludagur

Fræðsludagur er á haustönn en þá er kennsludagurinn brotinn upp þannig að nemendur geta stundað nám sitt utan hefðbundinnar stundatöflu. Kennarar skipuleggja kennslufyrirkomulag fræðsludaga sem getur verið mismunandi eftir fagdeildum og kennslugreinum.

Sæludagar

Nemendafélag FB skipuleggur sæludaga á vorönn. Þá er kennsla brotin upp og ýmiss konar tilboð fyrir nemendur innan skólans og utan. Sæludögum lýkur með árshátíð nemendafélagsins.