Kennarar skólans skipast í kennsludeildir eftir kennslugreinum og sérhæfingu. Við skólann starfa ríflega hundrað kennarar. Á bóknámssviði eru íslenskudeild, enskudeild, stærðfræðideild, náttúrufræðideild, tungumáladeild, félagsgreinadeild, upplýsingatæknideild, íþróttadeild og framhaldsskólabraut. Á listnámssviði eru myndlistardeild og textíldeild. Á verknámssviði eru tréiðnadeild, rafiðnadeild, snyrtifræðideild og sjúkraliðadeild. Sérdeild skólans, starfsbraut, er staðsett undir nemendaþjónustu. Kennarar FB eru sérfræðingar í þeim greinum sem þeir kenna. Vinnustaðanám fer fram utan skólans. Skólinn greiðir sjúkraliðum á stofnunum sem taka við sjúkraliðanemum laun samkvæmt ákvæðum í kjarasamningi þeirra.
Á sviði nemendaþjónustu er náms- og starfsráðgjöf, námsaðstoð, bókasafn, sálfræðiaðstoð og markþjálfun. Undir svið nemendaþjónustu fellur einnig skipulag á umsjón með nýnemum. Í nemendaþjónustu starfa náms- og starfsráðgjafar, bókasafnsfræðingur, sérkennari, sálfræðingur og markþjálfi. Umsjónarkennarar eru kennarar í fjölbreyttum námsgreinum.
Með áfangastjóra starfa verkefnastjórar um tiltekin viðfangsefni, s.s. kvöldskólann, fjarvistir nemenda, töflugerð, prófahald o.fl. Verkefnisstjórar í áfangastjórn eru kennarar við skólann sem sinna tilteknum verkefnum samhliða kennarastarfinu. Áfangastjóri starfar einnig í nánum samskiptum við skrifstofu skólans og fjármálastjóra, sem og við fagstjóra bóknáms, listnáms, verknáms og nemendaþjónustu til að leysa úr ýmsum viðfangsefnum er snerta innritun, nám, námsgengi og námsframvindu nemenda.
Sérfræðingar á sviði fjármála og starfsmannamála starfa undir fjármálastjóra, svo og kynningarstjóri sem jafnframt er verkefnastjóri erlendra samskipta. Þar starfa einnig kerfisstjóri, fulltrúar á skrifstofu, umsjónarmaður fasteigna, matráðar, ræstingastjóri og skólaliðar. Skólinn á einnig aðkomu að rekstri FabLab Reykjavík.