Erlent samstarf er öflugt í skólanum. Skólinn gefur nemendum og starfsfólki tækifæri á að stunda nám og þjálfun í útlöndum og þannig kynna sér skóla og fyrirtæki á erlendri grundu
Nemendum í list-og verknámi gefst kostur á að taka hluta af starfsnámi sínu í útlöndum. Starfsnám erlendis er metið að fullu. Lengd dvalar getur verið 4-12 vikur fyrir nemendur.
Alþjóðleg samskipti auka víðsýni, efla skilning á mikilvægi tungumálakunnáttu og veita innsýn í líf og störf fólks í útlöndum. FB tekur þátt í fjölmörgum alþjóðlegum verkefnum, bæði Erasmus+ og Nordplus verkefnum. Á hverju ári fara nemendur og starfsfólk til útlanda til að taka þátt í ýmsum verkefnum, sækja námskeið eða taka þátt í nemendaskiptaverkefnum og starfsþjálfun tengda námi þeirra og störfum í FB. Skólinn sækir um náms- og þjálfunarstyrki fyrir nemendur sína, nýútskrifaða nemendur og starfsfólk. Skólinn er í samstarfi við skóla í flestum löndum Evrópu.
Stefna FB á sviði alþjóðamála er í megindráttum sú að veita nemendum tækifæri til að víkka út reynslu sína og gefa þeim kost á að stunda hluta af námi sínu erlendis. Við leggjum einnig áherslu á að kennarar og starfsfólk eigi kost á að heimsækja skóla, fyrirtæki og stofnanir elendis og kynnast þannig því sem er efst á döfinni í faggreinum, svo og aðferðum og áherslum í námi, kennslu og miðlun á hverjum stað. Gagnkvæmar heimsóknir stuðla að auknum gæðum námsins og auka starfsgleði meðal nemenda og starfsfólks. Því lítum við á erlent samstarf sem mikilvægan þátt í því að bjóða nemendum okkar nám í hæsta gæðaflokki.
Skólinn hefur hlotið aðild að Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins (accredidation) sem gildir frá 2023-2027. Með aðildinni viðurkennir Landskrifstofa Erasmus+ hæfni FB til að skipuleggja og framkvæma góð náms- og þjálfunarverkefni en gerð er krafa um gæði verkefna þeirra sem fá vottun. Þá er mikilvægt að stofnunin framfylgi stefnumótun sinni í alþjóðamálum og skólinn hefur birt alþjóðastefnu sína, sjá hér að neðan.
Stefna FB í alþjóðamálum á sviði starfsmenntunar.
Hrafnhildur Hafberg er alþjóðafulltrúi skólans og veitir allar nánari upplýsingar. Netfang hennar er
hrh@fb.is.