logo

FJÖLBRAUTASKÓLINN Í BREIÐHOLTI

Um fb

Sýn

Við eflum einstaklinga til að skapa kærleiksríkt sjálfbært samfélag.

Hlutverk

Að mennta fólk til

lokaprófs úr

framhaldsskóla.

Gildi

Virðing

Fjölbreytni

Sköpunarkraftur

Stefnumið

  • Við leggjum áherslu á frið, lýðræði, réttlæti, jöfnuð og jafnrétti
  • Við vinnum saman að góðum námsárangri allra nemenda
  • Við menntum nemendur til að stuðla að sjálfbærni og virða líf og umhverfi
  • Við stuðlum að vellíðan og valdeflingu nemenda og starfsfólks
  • Við leggjum áherslu á góða samvinnu, hvetjandi og nærandi samskipti
  • Við iðkum, kennum og hlúum að nýsköpun
  • Við ræktum góð tengsl út á við og vinnum með nærsamfélagi skólans


Kennslufræðileg stefna skólans

Kennslufræðileg stefna FB byggir á því að lögð er jöfn áhersla á bóknám, listnám og verknám og er námið sniðið að breiðum hópi nemenda. Grunngildin virðing, fjölbreytni og sköpunar­kraftur eru leiðarljós í námi og kennslu. Í skólanum er lögð áhersla á að nýta til fulls kosti áfangakerfisins og fjölbreytt námsframboð til þess að nemendur geti fundið sér nám við hæfi. Áfangakerfið eykur ábyrgð nemenda á eigin námi og námsvali. Ábyrgðin þroskar þá og gerir um leið hæfari til þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi nútímans.


Fjölbreytni í kennsluaðferðum er mikil í skólanum, sveigjanleiki í námi og námsframboði sömu­leiðis. Mjög öflugt stuðningskerfi við nemendur er í skólanum og það er hluti af kennslu­fræðilegri hugmyndafræði, því skólinn er tækifæri fyrir alla. Kappkostað er að nýta tæknina í samræmi við námsmarkmið á hverjum tíma til að undirbúa nemendur sem best undir það sem við tekur að námi loknu. Kennarar eru hvattir til þess að vinna þróunarstarf hver á sínu sviði og sækjast eftir endurmenntun til að auka nýbreytni og faglegan metnað. Kennarar í hverri deild útfæra kennslufræðilega stefnu deildarinnar í samræmi við sérstöðu viðkomandi náms­greina.

Á öllum námsbrautum í FB er lögð áhersla á að nemendur nái tökum á lykilhæfniþáttum aðal­námskrár, en þeir eru: námshæfni, heilbrigði, skapandi hugsun og hagnýting þekkingar, jafn­rétti, lýðræði og mannréttindi, menntun til sjálfbærni, læsi, tjáning og samskipti á íslensku og erlendum málum, svo og læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar.


Saga skólans

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti var stofnaður 4. október 1975. Þessi fyrsti fjölbrautaskóli landsins markaði tímamót í íslensku skólastarfi því nú var hægt að sækja bók- og verknám í sama skólanum. Fyrsti skólameistari FB var Guðmundur Sveinsson sem lék lykilhlutverk í að leggja grunninn að stofnuninni. Fyrsta veturinn voru um 220 nemendur í einni álmu en þeim fjölgaði ört og húsakosturinn stækkaði í samræmi við það. FB bauð fyrst upp á nám í kvöldskóla árið 1981 og er hann enn starfræktur. Árið 1987 tók Kristín Arnalds við sem skólameistari og gegndi því embætti til ársins 2009 en þá var ný álma jafnframt tekin í gagnið með nýjum og stærri matsal fyrir nemendur. Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir tók þá við sem skólameistari og hefur gegnt embættinu síðan.


Merki skólans

Merki skólans er marggreina tré með stórri krónu og breiðum stofni. Tréð vísar til þess hversu traustur og fjölbreyttur skólinn er og hin breiða braut vitnar um gott aðgengi að námi. Til hliðar er skammstöfun á heiti skólans og grunngildin: virðing, fjöl­breytni og sköpunarkraftur.

Share by: