Stuðningur foreldra hefur mikil áhrif á námsárangur og námsgengi nemenda. Þannig minnka líkur á brottfalli verulega ef foreldrar sýna námi barna sinna áhuga, veita þeim aðhald og hvatningu. Í þessum anda kveður 33. grein framhaldsskólalaga á um að skólastjórnendum, kennurum og forráðamönnum beri að vinna saman að því að skólaganga ungmenna verði farsæl.
Samstarf við foreldra og forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri er í gegnum kynningarfundi, viðtöl og upplýsingagjöf. Nemendur sem koma beint úr grunnskóla og foreldrar þeirra eru boðaðir í viðtal hjá umsjónarkennara við upphaf skólagöngu. Foreldrar ólögráða nemenda geta sótt sér aðgang að Innunni, nemendabókhaldi skólans. Þar geta þeir séð stundaskrá, fjarvistir, einkunnir, verkefnaskil og námsferil barna sinna. Sé nemandi veikur, getur foreldri skráð veikindin beint í Innuna fyrir kl. 12 samdægurs.
Þegar nemandi nær sjálfræðisaldri er skólanum óheimilt að miðla upplýsingum til foreldra. Nemandinn þarf þá sjálfur að veita forráðamanni skriflegt umboð til þess að afla upplýsinga eða opna aðgang forráðamanns að Innunni, t.d. til veikindaskráninga.
Eitt af megin hlutverkum framhaldsskólans er að búa ungt fólk undir störf á vinnumarkaði. í FB fer fram formleg starfsmenntun húsasmiða, rafvirkja, sjúkraliða og snyrtifræðinga. Í löndum þar sem starfs- og verkmenntun er með mestum blóma tekur atvinnulífið virkan þátt í menntun ungs fólks og menntunin fer að hluta fram við raunverulegar aðstæður, úti á vinnumarkaði. Hér á landi er námið að stærstum hluta innan veggja skólans. Því er brýnt að rækta góð tengsl við atvinnulífið og veita aðilum atvinnulífsins aðgang að því sem fram fer í skólanum og auka gagnkvæma upplýsingamiðlun um námsfyrirkomulag annars vegar og þær kröfur sem gerðar eru um verkkunnáttu og færni úti á vinnumarkaðnum.
Hlutverk fagstjóra verknámsdeilda er m.a. að halda uppi virkum tengslum við atvinnulífið og vaka yfir því að skilaboð um nýja tækni og nýjar kunnáttu- og færnikröfur nái til kennara og nemenda. Helstu aðilar atvinnulífs er viðkoma námi í FB eru Rafiðnasamband Íslands, Trésmiðafélag Reykjavíkur, Byggiðn – Félag byggingamanna, Sjúkraliðafélag Íslands, Ríkisspítalar, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins.
Áhersla er lögð á að eiga í góðu samstarfi við nærsamfélag skólans í Breiðholti. Margvísleg tengsl eru við alla grunnskóla hverfisins, t.d. með grunnskólakynningum fyrir 10. bekkinga og samstarfi við Fab-Lab Reykjavík.
Starfsfólk FB tekur þátt í samræðu og samvinnu um málefni Breiðholtshverfisins. Náms- og starfsráðgjafar í skólum hverfisins funda ár hvert um málefni nemenda sem eru að færast frá grunnskóla yfir í framhaldsskóla. Skólinn á í góðu samstarfi við Þjónustumiðstöð Breiðholts um sálfræðiráðgjöf og þjónustu við nemendur.
Á liðnum misserum hafa í gegnum samfélagsþjónustuverkefni nemenda skapast tengsl við ýmsar stofnanir og fyrirtæki í nágrenni skólans eins og t.d. Félagsstarfið í Gerðubergi, leikskólana Bakkaborg, Hólaborg og Jöklaborg, Seljahlíð heimili aldraðra, Skógarbæ, Dýraspítalann Víðidal og Kattholt.
Kynning á námi í FB meðal grunnskólanemenda og forráðamanna er reglulegur þáttur í starfi skólans. Að hausti er nemendum 10. bekkjar í grunnskólum Breiðholts boðið í skólann þar sem þeim er kynnt skólastarfið og aðstaðan í skólanum. Á vorönn er opið hús í skólanum þar sem allar deildir kynna sig og nemendur geta fræðst um námið og rætt við fagstjóra, kennara og náms- og starfsráðgjafa. Skólinn tekur einnig þátt í sameiginlegum viðburðum framhaldsskólanna um kynningu á námi. Á Menntagátt er hægt að sækja upplýsingar um námsframboð framhaldsskólanna og sækja um skóla.
FB er einn af þrjátíu og tveimur framhaldsskólum á Íslandi. Skólarnir hafa með sér samráð á mörgum sviðum. Skólameistarar framhaldsskólanna hittast reglulega og funda um sameiginleg málefni skólanna og hið sama gildir um kennara og fleira fagfólk. Þetta virka samstarf stuðlar að auknum gæðum í skólastarfi á landsvísu þar sem fagfólk getur leitað ráða hvert hjá öðru og borið saman bækur sínar þvert á stofnanir.