Mín framtíð 2025, Íslandsmót iðn- og verkgreina ásamt framhaldsskólakynningum, fór fram í Laugardalshöll 13.-15. mars.
FB var með glæsilegan kynningarbás í höllinni þar sem fulltrúar úr hópi starfsfólks og nemenda kynntu nám á ólíkum brautum skólans; nemendur á sjúkraliðabraut mældu blóðþrýsting og mettun hjá gestum og gangandi, nemendur á listasviði teiknuðu andlitsmyndir, snyrtifræðinemendur buðu upp á dekurstund og nemendur á náttúruvísindabraut leyfðu gestum að skoða geitungabú í smásjá svo eitthvað sé nefnt.
Nemendur frá FB kepptu í fjórum keppnisgreinum á Íslandsmóti iðn- og verkgreina í liðinni viku. Tristan Þór Traustason keppti í húsasmíði og í rafvirkjun kepptu þau Karen Ósk Gísladóttir og Guðni Hlynur Granz. FB átti í fyrsta sinn í ár fulltrúa í keppni í vefþróun en lið FB skipuðu Adam Gapinski, Álfgrímur Davíð Pétursson og Halldór Hrafn Reynisson. Árangur FB-inganna var glæsilegur en lið FB lenti í 2. sæti í vefþróun, Tristan Þór lenti í 3. sæti í húsasmíði og Guðni Hlynur í 2. sæti í rafvirkjun. 12 nemendur af snyrtibraut kepptu einnig á Íslandsmótinu og urðu úrslitin svohljóðandi: Sæbjörg Jóhannesdóttir lenti í 1. sæti, Þórey Lára Halldórsdóttir í 2. sæti og Natalía Valgeirsdóttir í 3. sæti.
Allir keppendur á Íslandsmótinu stóðu sig einstaklega vel og við óskum þeim öllum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu. Aðrir nemendur á brautunum stóðu svo vaktina í kynningarbásnum okkar og svöruðu spurningum gesta um skólann og námið í FB og voru sérlega flottir fulltrúar skólans, við þökkum þeim öllum fyrir þeirra framlag!